Jæja, best að láta undan þrýstingi tjá mig aðeins á netinu. Ég var að skila heimaprófi í dag í Optimization og tókst bara ágætlega til. Í kvöld var svo stofnfundur nemendafélags QCF nema (Quantitative and Computational Finance) og er ég að sjálfsögðu í framboði í stjórnina enda er löngu kominn tími til að kynna vísindaferðir fyrir Könunum. Einhverra hluta vegna hafa nemendurnir hérna ekki fattað það snilldar fyrirkomulag að láta bjóða sér á fyllerí hvern föstudag í nafni vísindanna og sýnir það enn einu sinni yfirborði íslenska kynstofnsins (sérstaklega náttúrulega þess Garðabæíska).
Annars er það merkilegt með þetta nám mitt að mikil áhersla er lögð á atvinnu fyrir nemendur að námi loknu, jafnvel meiri en á námið sjálft. T.d. eru CV allra QCF nemendanna á netinu og er það ansi fróðleg lesning. Inn á milli er fólk með dokstorsgráðu í tölfræði og stærðfræði, auk margra ára starfsreynslu. Einnig má finna nokkra gullmola, eins og t.d. fulltrúa Frakklands í hópnum. Í CV-inu hans telur hann upp fjöldann allan af prófgráðum og verðlaunum og bætir svo við undir lokin að hann sé með svarta beltið í júdó og stundi "exotic dancing". Fyrir þá sem ekki vita hvað exotic dancing er að þá má taka það fram að það er ekki skottís. Hvaða starf hann ætlar að ná sér í út á þessa vanmetnu listgrein veit ég ekki, sennilega er best að senda hann bara í sveitina til Helga Jóns.
Nú, ekki nóg með að maður sé látinn blogga öllum stundum heldur er líka ætlast til að ég standi vaktina í eldhúsinu öðru hverju. Ég er meira að segja kominn með sérrétt, sem merkilegt nokk inniheldur ekki kjöt að neinu tagi. Um er að ræða ítalska grænmetissúpu og stefni ég að því að birta uppskriftina innan tíðar.
Jæja, best að kveðja í bili, nú get ég krotað þetta úr dagbókinni minni með góða samvisku.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home