Helstu fréttir eru þær að fleiri myndir eru komnar inn. Ég bætti við myndum í ferðaalbúmið (þið verðið bara að hraðfletta yfir þær myndir í því sem þið eruð þegar búin að skoða) og svo er nýtt albúm með myndum frá gamlárskvöldi og almennar túristamyndir frá Atlanta.
Við Rósa kíktum aðeins út í gær með stelpu sem er með mér í bekk. Fórum á Loca Luna sem er alveg frábær staður hérna rétt hjá með salsa sveiflu. Venjulega er helmingur staðarins undir beru lofti en nú var búið að strengja dúk yfir og setja hitara inn en það spillti nú ekki fyrir fjörinu. Nonni eldaði þetta líka dýrindis lasagna fyrir okkur í kvöldmatinn og svo keyrði hann okkur og sótti á djammið. Er einhver sem er ekki sannfærður ennþá um að Nonni sé besti kærasti í heimi?! Held reyndar að hann hafi verið hálffeginn að losna við okkur, allavega hvatti hann okkur duglega til að kíkja nú út ;)
Dagurinn í dag var alveg frábær. Veðrið var með besta móti og við röltum í Piedmont Park þar sem við slöppuðum bara af á teppi, lásum og horfðum á fólk með hundana sína og flugdreka. Gestur, Lena og Hulda Clara komu svo seinnipartinn til okkar þangað og svo fórum við öll á uppáhalds staðinn okkar hérna sem er tælenskur matur eins og hann gerist bestur. Kvöldinu var svo eytt í lestur jólabókanna og að safna kröftum fyrir morgundaginn. Á morgun ætla ég svo að byrja á því að bursta Rósu í skvassi (ég hef einu sinni spilað, hún aldrei), svo byrjar skólinn klukkan tólf en eftir skóla ætlum við að fara í smá verslunarleiðangur.
Takk fyrir og góða nótt.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home