þriðjudagur, júní 01, 2004

Mögnuð ferð til Maryland

Eins og áður hefur komið fram á þessari síðu þá var ferðinni heitið til Maryland um helgina. Ferðin hófst um hádegisbil á föstudaginn þegar húsmóðirin lagði í'ann með leiðbeiningar frá Mapquest í farteskinu um hvernig væri best að komast á flugvöllin í Baltimore og þaðan á hótelið okkar. Frá Boston að flugvellinum áttu að vera 6 tímar og 40 mínútur. Eftir 11 tíma keyrslu (3 tímar í umferðateppu í Brooklyn, NYC) renndi ég svo í hlað á hótelinu í Baltimore, eftir að hafa þurft að láta Nonna taka leigubíl frá flugvellinum því ég var klukkutíma of sein.

Á laugardagsmorgninum var svo lagt snemma af stað og brunað til Oakland í Maryland en þangað er þriggja tíma keyrsla frá Baltimore. Oakland pínulítill smábær rétt upp við fylkjamörk West Virginia, en það var ekki tilviljun að kvikmyndin Deliverance hafi verið látin gerast þar. Í Oakland er fólk annað hvort mjög fátækt eða mjög ríkt en mikið af efnuðu fólki frá Baltimore og DC á sumarhús þarna enda er náttúrufegurðin mikil. Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið um Bandaríkin og búið í Suðurríkjunum hef ég aldrei séð alvöru rauðhálsa sem keyra um með sítt að aftan á pallbílnum með riffilinn í aftursætinu. Oakland er hins vegar góður staður til þess að skoða þannig fólk.

Klukkan sex hófst svo brúðkaupið en Adilka, dóminikönsk vinkona mín frá Georgia Tech, var að giftast strák sem er frá þessum bæ. Fólk er að sjálfsögðu mjög trúað á þessum slóðum og það hefði kannski ekki átt að koma okkur á óvart (en gerði það samt) þegar presturinn fór að tala um ógnina sem hjónabandinu stæði af samkynhneigðum "hjónaböndum" í ræðunni. Einnig virtist athyglisvert að fólk túlkaði skilaboðin "formal dress" á boðskortinu ansi misjafnlega og margir (allir með sítt að aftan) mættu bara í stuttermaskyrtum og með derhúfur. Eins og sjá má af myndinni vorum við skötuhjúin náttúrulega langflottust... en það segir kannski meira um samkeppnina heldur en okkur...



Eftir athöfnina var svo haldið í veisluna en hún var ansi róleg á íslenskan mælikvarða og bara tvær stuttar ræður og lítið um að vera. Við vorum hins vegar á borði með nokkrum krökkum sem höfðu alist upp þarna en voru öll brottflutt svo þau gátu sagt okkur frá lífinu þarna og gerðu mikið grín að því. Brúðurin var svo að sjálfsögðu gullfalleg og geislaði af hamingju.



Eftir veisluna tóku borðfélagar okkur svo með sér á bar þarna í nágrenninu. Þetta var víst einn af betri börum bæjarins en þrátt fyrir það voru flestir þarna hálf tannlausir og með sítt að aftan.

Á sunnudagsmorguninn lögðum við svo snemma í'ann aftur. Keyrðum fram hjá Slysi á leiðinni, en sú nafngift er kannski lýsandi fyrir ástandið þarna.



Í Baltimore hittum svið svo Matt frá Georgia Tech en hann er frá úthverfi borgarinnar. Hann sýndi okkur það sem borgin hefur upp á að bjóða (nokkra veitingastaði niðri við höfn) en aðallega var samt gaman að hitta hann aftur.



Að lokum var svo komið að hápunkti ferðarinnar en það var stopp í IKEA í úthverfi Baltimore. Aumingja Nonni fylgdist skelfdur með þegar húsmóðirin breyttist í kaupóðan geðsjúkling í þessa tvo tíma sem við vorum þar. Á myndinni má ennþá sjá geðsýkisglampann í augunum eftir að komið var út.



Að lokum var svo brunað til Boston og við komum heim klukkan hálf fjögur á sunnudagsnóttina. Þreytt en mjög sátt við ferðina.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Haha, þetta hefur verið skemmtileg ferð. Skil þig með Ikea, hef tekið nokkur slík geðsýkisköst í vetur. Já og Nonni bara farinn að safna hári. Líst vel á þetta. Hlakka geðveikt til í brúðkaupinu ykkar í sumar.

Love & respect.

Annie.

10:19 f.h.  
Blogger Brynja said...

Það er sko ekki af eigin vilja sem Nonni er að safna hári. Þetta er allt partur af "My Big Plot" fyrir brúðkaupið... moahaha.

10:39 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Mæli líka með 16 tíma rútuferð um Bandaríkin til að skoða rauðhálsana. Það er ansi hressandi.
Luv Laurie

10:47 f.h.  
Blogger Brynja said...

Oakland er nú ekki svo langt frá State College ;)

12:14 e.h.  
Blogger Brynja said...

Já, get trúað því að það hafi verið vandræðalegt að keyra fram hjá samræði. En hvað gerir fólk sem er frá þessum bæ þegar það kynnir sig? "Hi, my name is Gary and I am from Intercourse".

9:10 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home