Nú er allur jólamaturinn búinn og búið að opna alla pakkana. Reyndar eru jólakortin enn að detta inn um lúguna og er annað hvert kortanna með mynd af barni. Greinilegt er að okkar árgangur er tekinn til við að fjölga mannkyninu af krafti. Líkur standa til að þessi kynslóð sem nú er að fæðast muni verða mestu dekurdýr sem uppi hafa verið og eiga þau vænanlega eftir að upplifa miklar breytingar. Það verður gaman fyrir okkur eldra fólkið að geta sagt þessum börnum sögur af sjónvarpslausum fimmtudögum, ferðalögum fyrir tíma alnetsins og upphafsdegi bjórsins á Íslandi, þegar kútarnir fara að eldast. Sögum ömmu og afa um bílalausa moldarvegi, torfkofa og Kanasjónvarpið eiga gríslingarnir hins vegar ekki eftir að trúa án þess að fá staðfestingu í sögubókunum.
Annars langar mig til að nota tækifærið og þakka fyrir pakkana mína. Ég fékk forláta taflborð frá elskunni minni og einnig matreiðslubók með nakta kokkinum - honum var nær að byrja með rauðsokku hugsa nú væntanlega sumir. Einnig fékk ég bolla og geisladisk og svo nokkrar bækur. Nýja bókin eftir Arnald Indriðason var ein af þeim og var hún náttúrulega lesin í einni lotu, enda maðurinn algjör snilldarhöfundur. Óhætt að segja að hann gefur þessum labbakútum í útlöndum ekkert eftir. Sú bók sem kom hins vegar mest á óvart var bókin Samúel eftir Mikhael Torfason sem ég fékk frá tengdó. Þetta er undarlega pervisin bók um íslenskan geðsjúkling í Danmörku og fannst mér bara ansi gaman að henni. Ég vona að þetta segi ekki mikið um mig en get allavegana huggað mig við það að Rósa hafði enn meira gaman af henni en ég. Brynja fékk svo bókina Lovestar eftir Andra Snæ Magnason og lýst mér bara ansi vel á hana (búinn með ca. einn þriðja).
En nú taka námsbækurnar við.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home