Við fórum í mat í gær til Mayu og Lauren, sem eru nágrannar Gests og Lenu. Ég sá um eftirréttinn og eyddi því um klukkutíma í eldhúsinu við að baka íslenskar pönnukökur. Þær féllu náttúrulega í góðan jarðveg en mig grunar nú að ég hafi borðað ca. helminginn af þeim sjálfur, er nokkuð að því að finnast pönnukökur góðar?
Annars barmaði Maya sér mikið yfir því að hún þarf að vera brúðarmey fyrir frænku sína sem er að fara að giftast í sumar og skiljanlega. Hún þarf að eyða stórfé í brúðarsturtu (e. bridalshower) sem brúðurinn ræður hvernig fer fram en vinkonur hennar borga fyrir. Það vill svo skemmtilega til að brúðurinn er af ríku fólki og vill því hafa allt fínasta fínt og er ekkert að spá í það að aðrir borga brúsann. Eins og í bíómyndunum þurfa svo brúðarmeyjarnar að vera í forljótum kjólum í giftingunni sjálfri og vill svo skemmtilega til að þær þurfa að borga fyrir kjólana líka. Maya þarf því að borga um 400 dollara fyrir kjól sem hún valdi ekki sjálf og finnst forljótur og mun aldrei nota aftur eftir þessa giftingu. Mikið er ég feginn að þurfa aldrei að verða brúðarmey í Ameríku.
Ég mæli annars með myndinni Shanghai Knights fyrir þá sem hafa gaman af góðri blöndu af gríni og slagsmálum, Jackie Chan klikkar ekki og svo er Owen Wilson hafður með fyrir stelpurnar. Einnig hvet ég þá sem ekki hafa séð The Scorpion King til að drífa sig út á leigu til að missa ekki af þessu meistaraverki.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home