sunnudagur, mars 09, 2003

Mardi Gras
Á mánudaginn í síðustu viku héldum við Brynja á Mardi Gras hátíðina í New Orleans. Með í för var einnig par frá Búlgaríu og einn strákur frá Pakistan sem er í bekknum mínum. Ferðin hófst á 8 klst. akstri til að komast á svæðið og fór mestur hluti ferðarinnar í að rekja garnirnar úr pakistanska vini okkar um venjur í landinu hans og aðallega hvernig konu hann ætti og mætti finna sér. Hann hefur ekki verið við kvenmann kenndur til þessa og verður að halda sig frá þeim furðulegu verum þar til móðir hans hefur fundið handa honum hentuga brúði. Hann fær reyndar að velja á milli nokkurra stelpna og getur einnig skilað þeirri sem hann velur innan þriggja mánaða ef galli reynist á vörunni.

Við komum til New Orleans í kringum kvöldmatarleytið á mánudaginn í mígandi rigningu og minnti því stemningin um kvöldið mest á Íslenska útihátíð. Munurinn var reyndar sá að þarna gat maður brugðið sér inn á matsölustaði og jazzklúbba til að þerra sig að utan en væta sig að innan. Mardi Gras hátíðin er karnival af bestu gerð og er mikið af skrúðgöngum út um allan bæ og fólk keppist við að klæða sig upp í furðulega búninga og skemmta sér og öðrum. Sjá má á myndunum sem Brynja ætlar að setja inn seinna í dag dæmi um óvenjulegan klæðaburð og stemninguna á svæðinu. Einkenni hátíðarinnar í New Orleans er hins vegar það að fólk hendir perluhásfestum (gervi) út í mannskarann og keppast náttúrulega allir við að ná sem flestum og flottustum perlum. Er til þess ætlast að stelpurnar sýni á sér brjóstin í þessum tilgangi og eru þær náttúrulega margar sem taka það bókstaflega og flagga sínum tveimur fegurstu í allra sýn. Bæði er þar um að ræða atvinnukonur í faginu en einnig hálfgerða nýgræðinga á öllum aldri, stærðum og gerðum. Pakistaninn í hópnum okkar var eins og gefur að skilja dáleiddur yfir því sem hann sá og naut sín alveg sérlega vel. Reyndi hann náttúrulega að ná sem flestum af flössurunum með sér á filmu og fékk meira að segja að kyssa nokkur pör af brjóstum.

Við eyddum þriðjudeginum í að skoða skrúðgöngur og þræða barina í franska hverfinu. Um kvöldið var svo haldið áfram í perlustemningunni og einnig fórum við inn á blúsklúbb þar sem ein "big mama" fór alveg á kostum - þvílík söngkona. Á miðnætti endaði svo hátíðin formlega og var þá ekkert verið að dútla við hlutina heldur lokuðu allir barir og sölubásar á svæðinu um leið og göturnar tæmdust. Við sáum því sæng okkar útbreidda og skelltum okkur heim á hótelið okkar, sem var alveg sérlega glæsilegt - eða ekki.

Við Brynja keyrðum svo heim á miðvikudeginum og stoppuðum náttúrulega í Kentwood, Louisiana, til að skoða Britney Spears safnið. Safnið reyndist vera frekar sorglegt og fengum við þá skýringu að Britney væri svo upptekin að hún hefði ekki haft tíma til að koma minjum sínum til safnsins. Uppeldisbær stjörnunnar var ekki heldur mikið fyrir augað og stendur svo sannarlega undir nafninu krummaskuð.

Eftir að hafa vottað Britney Spears virðingu okkar keyrðum við af stað til Atlanta og lentum strax í grenjandi rigningu og það rigndi stanslaust á okkur í 9 klst. og í fjórum fylkjum. Einnig var stanslaust verið að vara við hverfilbylum á svæðinu sem við vorum að keyra á en sem betur fer sáum við ekkert svoleiðis fyrirbæri. Við lentum svo heil og sæl í Atlanta um 11 á miðvikudagskvöldið og erum búin að liggja í leti síðan þá. Reyndar mættum við í partý í gær til að halda upp á 1 árs afmæli hennar Huldu Clöru Gestsdóttur og var það náttúrulega svakaleg stemning.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home