Það skal viðurkennt hér og nú að ég skoða stundum fasteignasíðuna á mbl.is þótt að ég sé ekki að leita mér að íbúð. Ástæðan er einfaldlega sú að mér finnst gaman að sjá hvernig er umhorfs inni hjá fólki sem ég þekki ekki neitt. Og ég á reyndar vonandi eftir að kaupa íbúð einhvern tíman á næstu árum svo það er ágætt að undirbúa sig.
Þetta er samt hin besta skemmtun og alveg merkilegt hvað sumt fólk getur verið ósmekklegt. Þá er ég ekki að tala um að allir eigi að hafa eitthvað sem mér finnst flott inni hjá sér. Nei, ég er að tala um það að sumt fólk innréttar hjá sér þannig að allar heilvita manneskjur (þetta fólk er semsagt ekki meðtalið) geti verið sammála um að það sé beinlínis ljótt. Hvað er t.d. málið með að búa í lítilli kjallaraíbúð og setja inn risastórt gervileðursófasett sem tekur 80% af gólfplássinu, hafa svo bleikar rimlagardínur, gula veggi og gluggatjöld í brjálæðislegu munstri í öllum öðrum litum en akkúrat þeim sem eru á öðrum hlutum í stofunni.
Svo eru sumir sem eiga kannski allt í lagi íbúðir en taka myndir af fáránlegum hlutum. T.d. var einn með ca. 8 myndir af íbúðinni og þar af var ein bara af rafmagnstöflunni. Aha, ég var einmitt að leita mér að flottri rafmagnstöflu...
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home