föstudagur, júní 06, 2003

Loksins loksins... kemur smá blogg hérna. Ég er svo samviskusöm í vinnunni að mér dettur ekki í hug að blogga á vinnutíma. Vinnan farin að rúlla vel af stað og alveg frábær helgi á Snæfellsnesi í vændum. Nonni form tók sig til.og skipulagði þessa fínu ferð yfir hvítasunnuna. Þetta verður þoggaleg paraferð en hópurinn samanstendur af mér og Nonna, Önnu og Palla, Huldu og Óla og Geir og Hrefnu. Vinkona Önnu ætlar að mæta með sinn kærasta á morgun og svo koma Kiddi og Karólína á sunnudaginn. Planið er að fara í sex tíma kajakferð út í Breiðafjarðareyjar á morgun með grilli í einni eyjunni. Svo verður farið út að borða um kvöldið í Stykkishólmi og tjúttað við tóna Bardhuka en það er einmitt einhver "Viking Ice Blue" blúshátíð þessa helgi í "Hólminum". Á sunnudaginn ætlum við svo á jökulinn, annað hvort með troðara og svo að skíða niður eða bara að ganga á hann. Um kvöldið töfrar Anna Þorbs fram dýrindis grillmáltíð. Á mánudaginn ætlum við að rölta frá Arnarstapa að Hellnum og kannski að láta spá fyrir okkur eða eitthvað í nýaldarmiðstöðinni. Við ætlum samt aðallega að fá okkur vínglas á minsta kaffihúsi landsins í fjöruborðinu á Hellnum. Oh... hlakka geðveikt til!

Við erum flutt frá Láru og í Furugrundina og erum búin að eyða síðustu vikunni í að þrífa skítinn eftir helv... Spánverjana sem bjuggu þarna síðustu mánuðina. Eins og mér finnst nú leiðinlegt að þrífa þá beinlínis hata ég að þrífa skítinn eftir ókunnugt fólk og vorkenni sjálfri mér mikið þessa dagana. Þetta er samt allt að verða búið og lokahnykkurinn verður sennilega í kvöld þegar Nonni mun ryksuga með þessari líka fínu ryksugu sem ég var að fjárfesta í áðan í Elko. Af því að ég fékk svo góðan díl á ryksugunni mátti ég fara í Smáralind og kaupa mér smá föt líka... hehe.

Kvöldið verður rólegt nema að nú er ég í grillveislu í Goðheimum sem er svona hálfpartinn haldin til að fagna því að Siggi var að útskrifast úr Langholtsskóla þótt hann hafi ekkert viljað gera með það að halda eitthvað upp á það. Mamma og pabbi voru að dást að sjálfum sér fyrir að hafa átt börn samfleytt í skólanum í 19 ár en þá benti ég þeim á foreldra Rósu sem hafa átt börn þarna í 29 ár. Geri aðrir betur!

Annars segi ég bara góða helgi og gangið hægt um gleðinnar dyr!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home