þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Overriding the Algorithm in the Matrix

Við skötuhjúin vorum að horfa á DVD mynd í gær. Við sáum myndina The Italian Job sem verður að segjast að er alveg afskaplega metnaðarlaus mynd. T.d. þegar þrír bílar voru að keyra var verið að svissa á milli fjögurra ökumanna og handritið var svo lélegt að leikararnir voru stundum mjög vandræðalegir að segja línurnar sínar. Það sem hins vegar angraði mig mest við þessa mynd, og reyndar margar aðrar, er hvað hún var ofsalega mikið að reyna að vera high-tech án þess að vera með minnstu grunnatriði á hreinu. Það virðist vera að margir leikstjórar/handritshöfundar haldi að myndin sé orðin high-tech ef notuð eru nógu tæknilega "flókin" orð. Orð eins og "Algorithm", "Matrix" og "Blueprint" eru sérlega vinsæl í þessu samhengi.

T.d. sagði ein söguhetja í Italian Job setningu svipaða "I broke into their system matrix and overrode their transportation algorithm with my kick ass algorithm". Þennan "kick ass algorithm" til að eyðileggja umferðarkerfi Los Angeles hristi viðkomandi fram úr erminni á parti úr degi. Einnig var mjög snjallt hvernig þau gátu með því að ganga um þrjú herbergi með litla myndavél, sem komst fyrir í barmnælu, orðið sér úti um "Technical Blueprint" af öllu húsinu. Þetta "Technical Blueprint" var semsagt þrívíddarmynd af öllu saman, með öllum leiðslum og nákvæmum mælingum á öllum fjarlægðum, hæð og breidd. Svo gat viðkomandi bara ýtt á "Enter" á lyklaborðinu og þá kom upp nákvæmlega sú mæling sem viðkomandi var að leita að, t.d. þykkt hjólbarða á bíl. Snilld!