föstudagur, ágúst 29, 2003

Það er nú bara ansi gott að vera komin aftur til Atlanta. Við vorum næstum búin að gleyma hve íbúðin okkar er frábær, þó svo að sundlaugin sé ekki ennþá tilbúin, aargh. Reyndar veitti alls ekki af sundlaug núna því það er um 30-35 stiga hiti upp á hvern dag og alveg svakalega rakt. Eins og Brynja hefur sagt frá að þá er nóg að gera hjá okkur um helgina. Dagskráin byrjar á eftir með ferð í Outletið, þar sem hægt er að kaupa gæðagripi á útsöluverði, og svo býst ég við að við kíkjum út með henni Adilku í kvöld. Fyrir þá sem ekki vita er Adilka vinkona Brynju frá Dóminíkanska lýðveldinu. Á morgun er okkur svo boðið í mat til Gessa, Lenu og HC og einnig verða á staðnum íslensk prestshjón sem eru víst ný flutt hingað. Það verður spennandi að heyra hvað þau eru að gera hérna í biblíubeltinu. Á sunnudaginn er svo meiningin að fara í Six flags skemmtigarðinn og á mánudaginn mun ég taka aumingja Gesti í nefið í 10 km hlaupi og hirða bjórkippu af Baldri í leiðinni.

Ef við horfum aðeins lengra fram í tímann að þá er Dr. Andri að spá í að kíkja í heimsókn í lok september og munum við þá vafalaust reyna að finna tónleika með einhverjum heavy metal hljómsveitum. Pabbi og Edda ætla svo að kíkja til okkur í lok október en hugsanlegt er að pabbi sé að fara á ráðstefnu einmitt þá hérna í Atlanta, how convinient. Við Brynja ætlum svo að bregða undir okkur betri fætinum í október og fara í heimsókn til Önnu og Palla til LA. Þar verður vafalaust mikið um dýrðir en hápunkturinn verður væntanlega körfuboltaleikur á milli mín og Brynju annars vegar og Önnu og Palla hins vegar. Við Brynja ætlum okkur 3 stig út úr leiknum og ég mun því leggja mikla áherslu á að stoppa Önnu í sókninni. Brynja mun aftur á móti pakka Palla saman í vörninni og sjá svo um að raða niður þriggja stiga körfum í sókninni. Mikið verður gaman þá.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home