fimmtudagur, mars 18, 2004

Landinn

Alltaf verð ég jafn glöð þegar ég sé eitthvað íslenskt á erlendri grund. Hvort sem það eru Nikita föt í brettabúðinni á Newbury, Björk á fullu í skóbúðinni eða Sigurrós í boðskortabúðinni þá slær mitt litla, íslenska hjarta nokkur aukaslög og ég tárast af stolti. Þegar ég var að versla í Walgreens í fyrradag rakst ég á tvo, vestfirska sjóara sem voru að deila um það hvort þeir ættu að kaupa fimm eða sex pakka af Alka Seltzer. Mig langaði rosalega að labba upp að þeim og segja "Blézaðir, alltaf hittir maður landa" og hlæja stórkarlalega. Ég stillti mig samt um það enda sá ég fyrir mér fagnaðarfundi (landar eru alltaf glaðir að hittast) og að ég yrði að setjast niður við bjórdrykkju það sem eftir lifði dags. Hmmm, kannski ekki svo slæm hugmynd.

Mér finnst bara nokkuð gott hjá okkur sem lítilli þjóð á úthjara veraldar hvað við höfum komið okkur vel á kortið. Ekki þar með sagt að útlendingar viti yfirleitt eitthvað um Ísland en miðað við stærð held ég að við getum bara verið sátt. Ég vil trúa því að allt sé stærst, best, fallegast, gáfaðast og sterkast á Íslandi... miðað við stærð. Mér hefur líka fundist að gáfað og vel upplýst fólk hérna viti yfirleitt eitthvað um landið og við höfum ekkert við óupplýstan ruslaralýð að gera hvort sem er. Þeir vita sem þurfa...