Við dauðans dyr
Ég hélt ég væri að deyja í nótt. Í besta falli að missa fótinn... Ég vaknaði upp við sáran sting í hælnum í nótt og gat ekki stigið í fótinn. Ég vissi að ég væri með hælsæri og sem ég lá þarna milli svefns og vöku var ég sannfærð um að nú væri ég komin með blóðeitrun sem væri á hraðferð upp að hjartanu eða heilanum. Eða þá að það væri komin sýking í sárið sem væri að grafa sig inn í fótinn og eina ráðið væri aflimun. Ekki bætti úr skák að Nonni er í Kanada og ég sá fyrir mér að líkið myndi liggja og rotna fram á föstudag.
Ég rétt gat dregið sjálfa mig fram úr rúminu til að tékka á sárinu og búa um það. Sem ég er að gera það er næstum liðið yfir mig (nálar sko, þurfti að stinga gat á hælsærisblöðruna) og það sannfærði mig náttúrulega enn meira um það að blóðeitrunin hefði náð heilanum. Ég sættist á örlög mín, hugsaði hlýlega til fjölskyldu, vina og Nonna (sem skilur mig eftir á banabeði meðan hann skemmtir sér á strippbúllum) og lagðist til hvílu. Þegar ég vaknaði í morgun, sjálfri mér til mikillar ánægju, uppgötvaði ég að þetta er ekkert meira en lítið hælsæri sem var komið illt í. Ég get glatt ykkur með því að undirrituð er á góðum batavegi.
<< Home