What language are you speaking?
Ameríkanar eru ólíkir okkur Íslendingum að því leyti að þeir hika ekki við að labba upp að ókunnugu fólki og byrja að spjalla við það. Svo er sest niður saman og áður en kvöldið er úti eru allir orðnir bestu vinir og kyssast bless... án þess að einhver sé að reyna við einhvern.
Við Kristrún skelltum okkur einu sinni sem oftar á barinn eftir leikfimina í gær og lentum í þessu. Það að við tölum annað tungumál er greinilega góð leið fyrir ókunnuga að blanda sér inn í samræðurnar því við fengum að heyra klassíkerinn "what language are you speaking?" fjórum sinnum í gær. Í tvö skiptin voru þetta einhverjir andlegir lúðar sem við nenntum ekki að tala við. En við græddum líka boð í partý á föstudaginn hjá funky Harvard MBA nemum (no boring and uptight people are allowed) frá New York og tvö hvítvínsglös (stórgróði það!) og skemmtilegt spjall við nokkra gaura sem voru á leið til Íslands. Hérna er líka sjálfsagt að bjóða og þiggja í glas af ókunnugum án þess að það sé ætlast til eins eða neins. Heima er viðhorfið "ég kaupi mína drykki sjálf" við lýði sem er heldur ekki skrýtið þar sem oft er ætlast til þess að maður launi vínglasið vel.
En hvort er betra? Verandi Íslendingur finnst mér dáldið óþægilegt að taka þátt í smáspjallinu (smalltalk) sem Ameríkanar eru svo mikið í. Ég fyllist tortryggni þegar einhver sem ég þekki ekki neitt er ofsa næs og vill allt fyrir mig gera... enda skilst mér að oft sé ekki mikið bak við það sem sagt er þó ég hafi aldrei kynnst því sjálf (enda tortryggin úr hófi fram). Með Íslendinga, og Skandínava almennt, veit maður að það er ekkert verið að segja neitt sem fólk ekki meinar og ekki verið að tala við þig nema viðkomandi virkilega hafi áhuga á að kynnast þér.
Hins vegar var bara ansi gaman í gær og margur vinskapur hefur byrjað á smáspjalli. Með amerísku aðferðinni er hægt að prófa fullt af fólki og ef fólk hefur gaman af því er hægt að hittast oftar. Þetta gildir bæði um vinasambönd og parasambönd þar sem mér skilst að ameríska deit-hefðin virki bara ágætlega og þeir sem hafa prófað segja að Íslendingar mættu alveg taka sér þetta til fyrirmyndar. Kannski er þetta bara spurning um að læra á bæði fyrirkomulögin (heimatilbúin fleirtala af fyrirkomulag), vita af kostum og göllum hvers og eins og nýta sér þau í botn? Kannski er bara bæði jafn gott?
<< Home