Fahrenheit 9/11
Við fórum á nýjustu mynd Michaels Moore í gær, Fahrenheit 9/11. Fyrir þá sem hafa búið í tjaldi fjarri allri siðmenningu þá er myndin ádeila á stefnu Bush í stríðsmálum og hlaut Gullpálmann í Cannes í ár. Síðasta mynd Moore, Bowling for Columbine, er ádeila á byssuleyfis-stefnu stjórnvalda og hlaut hann Óskarsverðlaun fyrir hana.
Það gladdi mitt litla hjarta (sem er að sjálfsögðu vinstra megin) að Fahrenheit 9/11 var á toppnum hér vestra um síðustu helgi og sló út myndum eins og White Chicks og Dodgeball sem búist var við að myndu verða aðsóknarmestu myndirnar. Þetta gerðist þrátt fyrir að F9/11 hafi verið sýnd á þrisvar sinnum færri sýningartjöldum en hinar tvær. Eins og áður sagði fórum við í gærkvöldi en það var af því að það var uppselt á allar sýningar á mánudaginn. Bíóið var troðfullt og þegar við komum út sat hópur af fólki fyrir utan salinn til að bíða eftir að komast inn. Myndin er líka almennt að fá mjög góða dóma og ég hef aldrei farið í bíó þar sem var klappað jafn mikið í lok myndarinnar.
Sjálfri fannst mér myndin mjög góð. Í ekta MM-stíl þá verður að taka henni með gagnrýnu hugarfari enda málar hann mjög einhliða mynd. Hins vegar bendir hann á mjög athyglisverða hluti og fær fólk vonandi til að hugsa. Hann tók mjög vel á máli sem hefur farið mikið fyrir brjóstið á mér og ég minntist á í grein hér um daginn. Í hernum eru aðallega krakkar frá fátækum heimilum, þeir ríku þurfa ekki að senda krakkana sína í herinn til að geta gefið þeim betra líf.
Ég fyllist líka yfirleitt þjóðarstolti þegar Ísland ber á góma en í gær skammaðist ég mín niður í tær þegar listinn yfir "Coalition of the Willing" var lesinn upp og Ísland var nefnt ásamt nokkrum öðrum löndum og bent á þetta væru lönd sem væru ekki einu sinni með her. Hugsaði þeim Halldóri og Davíð þegjandi þörfina fyrir að hafa verið að blanda litla Íslandi í þetta mál þegar við eigum að vera friðelskandi lítil þjóð.
Það er of langt mál að fara að telja upp allt sem kom fram í myndinni, þið verðið bara að fara á hana. En ég verð að segja að viðbrögð Bush við því þegar honum var tilkynnt um 9/11 eru ótrúleg. Hann var að lesa fyrir börn í Flórída og eftir að honum var tilkynnt um seinni flugvélina liðu 7 mínútur þangað til hann stóð upp! Á meðan stóðu ráðgjafarnir hans mjög svo órólegir í kringum hann, greinilega að furða sig á því af hverju hann væri enn að lesa barnabók.
Ef þið ætlið á eina mynd í ár þá á þetta að vera hún!
2 Comments:
Það er alltaf uppselt og raðir eins langt og augað eygir... En mig langar til að sjá hana. Mér fannst Bowling for Columbine vera svolítið hallærisleg á köflum, en hafði samt nokkuð gaman af henni. Er spennt að sjá hvað mér finnst um þessa.
Mér fannst þessi mynd eiginlega betri en Bowling for Columbine. Þetta er náttúrulega alls ekki hlutlaus umfjöllun en mér fannst hann samt ná að hemja sig aðeins betur en Bowling auk þess sem hann var ekki að níðast á elliærum gamalmennum núna.
Ég er líka bara ánægð að það sé komin commercial kvikmynd sem fjallar um þessi málefni. Fær Ameríkana vonandi til að hugsa aðeins og kannski að kjósa ekki Bush aftur (þó að hann hafi reyndar ekki unnið kosningarnar síðast).
Skrifa ummæli
<< Home