fimmtudagur, desember 08, 2005

Hótel og hormottur

Þá erum við búin að eiga tvo rólega daga í Orchha eftir skít, drullu, hávaða og mannmergð í Delhi, Agra og Gwalior. Túrinn sem við pöntuðum hefur verið algjör snilld hingað til. Það er lögð mikil áhersla á að við fáum að kynnast landi og þjóð á sem bestan hátt. Í Orchha höfum við t.d. fengið indverska matreiðslukennslu inni á heimili ungra hjóna og í morgun fórum við að skoða lítið þorp hérna rétt hjá þar sem okkur var boðið inn á tvö heimili og skoðuðum skólana tvo sem eru í þorpinu. Annar skólinn er fyrir lægri stéttar börn en hinn fyrir efri stéttar börn. Mikill munur er á skólunum en báðir eru þeir þó reknir af ríkinu. Hins vegar þarf fólk að eiga peninga eða hafa völd til að geta mútað yfirvöldum til að geta sett sín börn í betri skólann.

Í gær var frjáls dagur sem Nonni notaði m.a. til þess að fá sér rakstur hjá einum af fjölmörgum rökurum hérna. Að sjálfsögðu lét hann raka sig að sið heimamanna og er nú með aumasta yfirvaraskegg í þorpinu. Við vonumst þó til að það muni taka vaxtarkipp og verði orðið þykkt og glæsilegt þegar við höldum heim á leið. Innifalið í rakstrinum var svo höfuð-, háls- og axlarnudd og rakarinn stillti sér svo hinn ánægðasti upp með Nonna fyrir myndatöku eftir þetta allt saman.

Hópurinn ferðast líka með "local transportation" en ekki hópferðabíl sem gerir ferðalagið miklu skemmtilegra. Hingað til höfum við ferðast með tveimur lestum, rútu og svo óteljandi "rickshaw" bæði vélknúnum (með kraft á við góða saumavél) og hjóla. Rútuferðin var algjör snilld. Við fengum að sitja frammí hjá bílstjóranum sem var vægast sagt mjög hræðileg upplifun á stundum þegar hann sveigði listilega fram hjá fólki, beljum, bílum, hjólum og skriðdrekum liggjandi á flautunni en án þess að hægja á sér. Bílstjórar hérna skreyta bílana mikið með guðalíkneskjum, blómsveigum, plakötum í neonlitum, ljósaseríum og svo glitri og glingri sem minnir mest á tacky jólaskraut. Svo var stoppað einu sinni á leiðinni þar sem bílstjórinn og nokkrir aðrir karlmenn stukku út og inn í Hindúahof til að biðja og mættu svo endurnærðir eftir tíu mínútur og héldu ferðinni áfram eins og ekkert hefði í skorist. Það veitir líklega ekki af að hafa guðina góða í umferðinni hérna. Þegar stuttur spölur var eftir varð uppi mikill fótur og fit á veginum og margir bílar stoppaðir. Þá hafði mótorhjólabílstjóri fengið yfir sig væna slummu af rauðum tóbakshráka úr rútu sem keyrt hafði framhjá og var nú mikil rannsókn í gangi. Eftir miklar rökræður í vegkantinum virtist þó einhver lending hafa fundist og bílarnir héldu allir hver í sína áttina. Við urðum þó ekki vör við að neinn sökudólgur hafi fundist.

Í kvöld er svo ferðinni haldið í næturlest til Allahabad þar sem við munum fara um borð í báta í fyrramálið sem munu sigla með okkur niður Ganges til Varanasi. Það verður eflaust skemmtileg lífsreynsla en ég býst nú ekki við að fá mikinn svefn í nótt. Varanasi er helst þekkt fyrir að vera mjög heilagur staður og þar eru allar myndir af fólki að baða sig í Ganges teknar. Við hlökkum því mikið til að upplifa þetta allt saman. Þess má geta að við verðum því ekki í neinu netsambandi á morgun og kannski ekki hinn daginn heldur. GSM samband virðist þó vera mjög gott alls staðar og alltaf má senda okkur skemtileg SMS.

Að lokum má geta þess að við ákváðum að skipta um hótel þessar tvær síðustu nætur sem við verðum í Delhi. Við ætluðum upphaflega að vera á hótelinu sem við byrjuðum þennan túr á (ekki sama og við vorum á þegar við komum fyrst). Í fyrradag kom svo í ljós að við þrjú höfðum öll verið að hugsa það sama en enginn þorað að segja neitt. Þetta hótel var viðbjóður og við myndum frekar eyða nótt í helvíti en þar. Við laumuðumst því til að panta aftur á hótelinu sem við byrjuðum ferðina á en skömmumst okkar mikið fyrir snobbið. Þess má samt geta að nóttin á fína hótelinu kostar á við nótt á Edduhóteli.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home