mánudagur, mars 29, 2004

Glúster og Rockport

Við skötuhjúin skelltum okkur í smá bíltúr í gær. Nánar tiltekið til Glouchester og Rockport sem eru litlir ferðamannabæir rétt norðan við Boston. Það er nú ekki orðið alveg nógu heitt til að fara á ströndina en bjarta hliðin á því er að við vorum næstum því einu ferðamennirnir þarna. Við byrjuðum á því að fara á Sugar Magnolias kaffihúsið í Glouchester og fengum okkur krabbakökur og bláberjapönnukökur. Að því loknu röltum við um bæinn og skoðuðum í búðir. Ansi skemmtilegt því að búðarflóran samanstóð af forljótum listagalleríum, antikbúðum, fatabúðum með alveg hræðilegum fatnaði (hugsið um föt sem myndu fást í Kaupfélaginu á Djúpavogi) og svo var ein alveg risastór búð sem seldi notaða geisladiska, plötur og bækur. Eftir smá búðarrölt héldum við niður að sjó þar sem skemmtilegur göngustígur frá aðalgötunni og að garði þar sem hægt er að fara í lautarferðir ef veður leyfir. Hins vegar leyfði veður ekkert svoleiðis í gær þannig að við létum okkur stutt rölt nægja og skelltum okkur svo til Rockport.

Helsta skrautfjöður Rockport eru listamennirnir sem bjuggu þarna ásamt granítnámum sem mér skilst að hafi séð mest allri austurströndinni fyrir graníti hér á árum áður. Nú er svo komið að flestir listamennirnir eru fluttir annað en eftir sitja málarar sem pranga ljótum myndum af hafinu inn á grandalausa túrista. Við létum nú ekki gabbast en höfðum gaman af því að skoða galleríflóruna í bland við kaffihús og nammibúðir sem eru í litlum, krúttlegum kofum í "verslunarhverfi" Rockbort, Bear Skin Neck. Mjög skemmtileg stemmning og eflaust ennþá skemmtilegra að koma í sumar þegar allt er fullt af ferðamönnum og hægt verður að fara á ströndina.

Hér til hliðar er smá sýnishorn af stemmningunni en meira er væntanlegt með nýrri síðu sem er nú alveg að fara að bresta á...