fimmtudagur, október 07, 2004

Kaupæði

Kaupæði hefur gripið okkur skötuhjúin síðustu daga og líst mér orðið ekkert á blikuna. Frúin keypti sér gallabuxur í morgun fyrir upphæð sem nemur ca. 3ja mánaða launum meðal Kínverja og einnig keyptum við okkur forláta leðurstól í Leirtaushlöðunni. Ég er nú ekki saklaus af fatakaupum heldur því í síðustu viku snaraði ég upp veskinu og keypti tvenn jakkaföt frá Hugo vini mínum. Ég er nú svo praktískur að kaupa fötin í útsöluverslunum hérna rétt fyrir utan Boston og fékk þau því á hálfverði. Frúin lítur hins vegar ekki við slíkum vafasömum viðskiptum og vill borga sín föt fullu verði, verður meira segja sármóðguð ef henni er boðinn afsláttur.

Á þriðjudaginn fer ég aftur suður til Florida og klára vonandi endanlega verkefnið mitt þar. Verð ég einn að þessu sinni en vinnufélagi minn er farinn í önnur verkefni. Það verður væntanlega mikið unnið en svo reyni ég að kíkja á taílenska og indverska veitingastaði þess á milli. Næsti áfangastaður verður svo væntanlega höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC. Bankinn sem ég fer að vinna fyrir þar er staðsettur ca. 100 m. frá Hvíta húsinu (ekki auglýsingastofunni). Ég gæti því átt von á að hitta einhverja fræga pólitíkusa á vappi og get kannski frætt þá eitthvað um Ísland og útskýrt fyrir þeim sjónarmið okkar varðandi hvalveiðar.

Næsta sumar er svo planið að hlaupa Laugaveginn, milli Landmannalauga og Þórsmerkur, og er ég farinn að peppa menn upp. Hlynur, Stígur og Pippi eru funheitir en einhver púki er í Baldri, kannski að hann sé ófrískur aftur! Bíð svo eftir svari frá Geira Danabana og Gessa pönk, en á ekki von á öðru en góðum undirtektum þar. Ef einhverjir fleiri hafa áhuga á að slást í hópinn og hlaupa 55 km yfir möl og móa að þá er um að gera að hafa samband.

Magnað annars hvernig Cheney er búinn að fara illa síðustu dagana í kosningabaráttunni. Hann þótti hafa staðið sig betur í kappræðunum á þriðjudaginn en Edwards, en svo hefur komið upp úr grafinu að hann var með alls kyns staðreyndavillur í svörunum. Þóttist t.d. aldrei hafa hitt Edwards fyrir kappræðurnar og sakaði Edwards um slæma mætingu á þinginu, en bandarískir sjónvarpsmenn voru náttúrulega ekki lengi að grafa upp myndir af þeim saman. Einnig þóttist hann aldrei hafa ýjað að tengslum milli Saddams og Osama, en það reyndist náttúrulega tóm þvæla líka. Lítur út fyrir að fylgið sé að færast í rétta átt núna, þ.e.a.s. frá Bush. Verð þó að segja að demókratarnir eru afskaplega veikir í innanlandsmálum.

Spurning að lokum: Hvað á maður að gera við konur sem kaupa sér gallabuxur fyrir 170 dollar?
a) Ekkert, enda voru þetta kostakaup
b) Láta hana sjá um uppvaskið í mánuð og banna henni að horfa á Queer Eye for the Straight Guy
c) Senda hana á fund hjá Shoppers Ananomous.




12 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Verst að þú ert ekki meira í Boston, því þá væri engin vandi að láta konuna "vinna" fyrir buxunum.

Annars ertu kaldur að koma með óléttubrandarann, hélt við vissum allir hvernig þannig grín endar :-)

4:33 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta var sko ég sem kommentaði hérna fyrir ofan.
kv. Baldur

5:05 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Bíddu... þetta eru hræódýrar buxur. Ættir að vera stoltur af henni að vera svona hagsýn ;-)
kk
Bibba

7:00 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Bíddu... þetta eru hræódýrar buxur. Ættir að vera stoltur af henni að vera svona hagsýn ;-)
kk
Bibba

7:06 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

if buxur=design then
svar=a
elseif buxur=from Hagkaup or from WalMart then
svar=c
end

Nonni, maður borgar fyrir gæði og er ég alveg sammála frúnni að það er ekki beint kúl að fara í útsölumarkaði út á land til að kaupa design föt.

Góða ferð til Flórída, mundu að taka skjólgóðan fatnað. Það er víst stundum hvasst þar.

Maggi

7:36 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Djöfull var mín að græða. Ég er stolt af henni.
Þú ert búinn að aðlagast verðinu úti allt of mikið. Ég veit ekki hvernig þetta verður þegar þið komið til Íslands. Son, it´s only going to get worse!!

BB Johnson

Ps. valmöguleiki A

8:37 f.h.  
Blogger Stína said...

170 dollarar er bara það sem þú borgar fyrir góðar gallabuxur í dag. þakkaðu bara fyrir að konan þín sé svona mikil gella. :-)
stína

9:20 f.h.  
Blogger Brynja said...

Þetta eru Citizens of Humanity buxur og mjög flottar þannig að þetta voru kjarakaup!

10:20 f.h.  
Blogger Aldís said...

hvernig er það er kominn einhver tímaáætlun á þetta hlaup...erum við að tala um vikuhlaup eða á að gera þetta á sama hraða og við hlupum upp Keilir hérna um árið...

ps...í glæpaverðlaginu hérna á Íslandi teljast þetta smáaurar fyrir gallabuxur...jafnvel þó þær væru ljótar...

kveðja
Baldvin

4:02 e.h.  
Blogger Brynja said...

BTW... mér finnst það nú bara merki um mína hagsýni og sparsemi sem húsmóður að eiginmaðurinn skuli yfir höfuð vera að skrifa um þetta... Kudos to me!!!

11:24 e.h.  
Blogger Brynja said...

Hvur þremillinn, ég bjóst nú við smá support frá strákunum.

10:26 f.h.  
Blogger Brynja said...

Hvaða númer notarðu Magga mín?

P.s. þetta var Nonni sem var að tjá sig hér í mínu nafni áðan.

6:55 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home