mánudagur, janúar 17, 2005

Verðlaun heimsins eru vanþakklæti

Ég þarf að fara að passa mig. Eftir nokkur hvítvínsglös í útskriftarveislu á laugardaginn missti ég mig í pælingar um skilnað Brads og Jen* og ítarlegan rökstuðning um af hverju ég sá strax að fréttir um Kate Winslet á Rex um daginn hafi verið stórlega ýktar. Eftir u.þ.b. hálftíma leit ég í kringum mig og sá alla viðstadda horfa á mig með blöndu af skilningsleysi og vorkunn í augunum. Já, það kunna greinilega ekki allir að meta gott slúður. Ég þarf greinilega að fara að vanda betur valið á fólki sem ég eys úr viskubrunni mínum fyrir.

Annars átti ég nokkuð góða helgi. Áttum rómantískt hjónakvöld (mér finnst alltaf jafn gaman að vísa í okkur sem hjón) á föstudaginn sem endaði með því að við hittum Önnu og Frey óvænt (æ, litla Ísland) og fengum okkur einn drykk með þeim. Á laugardaginn stóðum við Birna í Smáralindinni og söfnuðum fyrir Neyðarhjálp úr norðri. Mjög gefandi og alveg yndislegt hvað þjóðin sýndi mikinn samhug. Sérstaklega fannst mér frábært þegar ungir krakkar tóku það upp hjá sjálfum sér að gefa vikupeninginn sinn í söfnunina. Já, ég held að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af æsku landsins og framtíð þjóðarinnar. Eftir þetta var svo haldið í ofangreinda útskriftarveislu þar sem mín skemmti sér svona konunglega, sérstaklega þar sem "brúðkaupsvínið" svonefnda (Vina Esmeralda) var á boðstólum. Í gær hitti ég svo Hjördísi, tilvonandi mömmu, og Ólsí á kaffihúsi, fór í 5 ára afmæli hjá Jónínu álfaprinsessu og endaði kvöldið svo á tékknesku gúllasi í sunnudagsmat hjá mömmu og pabba.

*Ég er semsagt með þá kenningu að þrátt fyrir að það hafi verið tekið fram sérstaklega í fréttatilkynningu (eiginlega einmitt þess vegna) frá þeim að skilnaðurinn tengdist að engu leyti nýlegum slúðursögum að þá gefi ég Angelinu og Brad sex mánuði til að koma út úr skápnum með ástarsamband sitt. Ég er m.a.s. tilbúin að veðja umtalsverðri fjárhæð á þetta.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég skil ekki hvernig fólk getur ekki haft áhuga á skilnaði Brads og Jennifer. Ég tel einnig nokkuð ljóst að Angelina og Brad munu prufukeyra hvort annað.

L&R

Annie

11:17 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home