Komin til Katmandu
Þá erum við komin til höfuðborgar Nepal, Katmandu. Við ferðuðumst með almenningsrútu og gekk ferðin framar vonum. Við vorum tveimur tímum á undan áætlun til borgarinnar en ástæðan er almennt verkfall. Þ.e. allir eiga að vera í verkfalli í Katmandu í dag af einhverri óskiljanlegri ástæðu. Allar búðir eru því lokaðar og umferð til borgarinnar var í lágmarki og við áttum þess vegna greiða leið. Okkur skilst samt að svona skyndiverkföll standi aldrei lengur en einn dag og oft opni allt klukkan sex þannig að við látum þetta nú ekki á okkur fá.
Leiðing frá Chitwan til Katmandu er alveg stórkostleg. Tilfinningin var líkast því að keyra um í Ölpunum. Við siluðumst upp snarbrattar hlíðar fjallanna með hrísgrjónaakra og litrík kofahreysi upp um allar hlíðar. Með Himalaya fjallgarðinn í baksýn er ekki hægt að segja að þetta hafi verið slæmt útsýni.
Við erum orðin vön alls konar skrýtnum hlutum á þessu ferðalagi. Til dæmis á fólk í þessum heimshluta mjög erfitt með að segja nei. Í staðinn fyrir að segja bara að eitthvað sé ekki til er bara sagt já og svo komið með eitthvað annað. Í sumum tilfellum segir fólk bara já og felur sig svo þegar farið er að leita eftir frekari svörum. Rósa lenti t.d. í því að þurfa að senda rauðvín þrisvar sinnum til baka þegar hún hafði pantað hvítvín þangað til þjónninn gat loksins hóstað því upp að hvítvínið væri búið. Í Nepal tekur líka ekki minna en klukkutíma að fá mat á veitingastöðum þannig að það er betra að vita með góðum fyrirvara hvenær maður verður svangur og þá hvar og hvað á að borða.
Í gær var skotárás rétt utan við Katmandu. Samkvæmt nepölskum fréttum gekk hermaður berserksgang og skaut 12 manns til bana og særði 19 í Hindúahofi. Fyrir þá sem eru áhyggjufullir heima er hægt að upplýsa að þetta á ekki að hafa nein áhrif á okkur eða okkar ferðaplön.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home